Til baka

Leiðari

Fegurðin, ásýnd hlutanna og fjármálin þar að baki

Leiðari ritstjóra Vísbendingar í þemablaði vorsins um skapandi greinar - ásamt efnisyfirliti

dji-20231206153022-0452-d

Fjármál og listsköpun hafa haldist í hendur um árhundraða tímabil. Mismikið vissulega. Eigendur Medici bankans í Flórens á Ítalíu, sem fór í þrot árið 1494, voru helstu bakjarlar endurreisnar listarinnar í héraðinu, sem þeir stýrðu nánast. Bankinn var stofnaður árið 1397 og þjónaði jafnt páfanum í Róm sem nágrannalöndum og lagði mikið af mörkum til þróunar eða nýsköpunar í bankarekstri. Medici lagði grunn að þeim bankarekstri sem við þekkjum í dag og mikilvægum umbótum í bókhaldi.

Hinar skapandi greinar hafa ávallt haft ríkuleg efnahagsleg áhrif. En líkt og nýleg skýrsla menningar- og viðskiptaráðuneytisins fyrrverandi velti upp á síðasta ári þá þarf að draga framlag sköpunarinnar fram í hagrænt dagsljós landsframleiðslunnar.

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra skrifar fyrstu grein blaðsins og síðan höfundur skýrslunnar sem margir aðrir greinarhöfundar vísa og til. Eins er farið yfir söguna að baki þeirri mörkun skapandi greina hérlendis í greinum bæði frá sjónarhóli listamanna og frá fulltrúum þeirra sem starfa fyrir ólíkar greinar. Síðan er sjónum beint að nýsköpun og miðlun menningarinnar í víðtækum skilningi svo sem í söfnum, tónleika- og sýningarhaldi. Þá er sjónum beint að rannsóknum, menningararfinum og loks fá listamenn sjálfir orðið undir lok blaðsins.

Hvað er list og hvernig flokkast hún?

Mælingar Hagstofunnar á skapandi greinum skipta máli til að sýna glöggt mikilvægi hins hagræna framlags. Forsendur umfjöllunarinnar hér í þessu þemablaði miðast helst við þær greinar sem stærstar eru eins og sést í efnisyfirlitinu hér til hliðar. Þær forsendur sem eru gefnar í flokkun Hagstofunnar segja sína sögu en þar hefur nýlega verið ákveðið að útvíkka svið hugbúnaðar frá tölvuleikjum einvörðungu, svo dæmi sé tekið. Þá eru rótgróin fyrirtæki á borð við Össur og Marel oft nefnd í samhengi við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, en þau eru stórtæk í iðnaði.

Iðnvæðing sköpunar

Skapandi greinar eru ekki iðnaður, þó þær geti orðið það. Listsköpun er heldur ekki iðnaður, en getur verið tengd honum. Iðnhönnun er vissulega skapandi alveg á við hljóðfærasmíði og gullsmíði eða góður arkitektúr fyrir byggingariðnað og húsnæðisframleiðslu.

Flest framleiðsla og tækni er oft mikil völundarsmíð og byggir á hönnun. Þjónustu þarf einnig að hanna og viðmót í stafrænum heimi er byggt á skapandi nýtingu hugbúnaðar. Alveg eins og að handrið eða gluggaumgjarðir geta verið mikil listasmíð. Mælaborðið í bílnum þínum eða skjárinn á símanum eru líklega einhver flóknasta hönnunarvara sem þú notar daglega, þótt það sjáist aðeins slétt gler.

Framþróun iðnvæðingar tiltekinna listgreina eða skapandi greina getur þó verið vandkvæðum háð. Þannig telja margir að streymisveitur séu að éta upp verðmætasköpun listgreina. Rithöfundar fá víst jafnvirði eins lakkrísrörs að launum eftir tíu hlustanir á bók sína stafrænt.

Hausverkur hugverkaiðnaðar

Fyrsti hluti þemablaðsins tekur fyrir hagrænan hluta hinna skapandi greina og greinar frá hagaðilum stærstu listgreinanna. Á eftir fyrra viðtali blaðsins, um nýsköpun í nágrannalöndum okkar, má lesa greinar eftir frumkvöðla á sviði hugbúnaðar, stjórnunar og rannsókna á sviði skapandi greina. Loks er undir lok blaðsins annað viðtal og pistlar eftir starfandi og skapandi listamenn.

Gegnumgangandi þráður í greinum flestra er hið efnahagslega mikilvægi skapandi greina og hinna ólíku listgreina. Starfsumhverfið kemur mikið við sögu og innviðir listanna eða jarðvegur menningarinnar. Menning er miklu stærra fyrirbæri heldur en framlag skapandi greina til landframleiðslunnar.

Máttur menningarinnar

Menning er það að gera hlutina vel – sagði Þorsteinn Gylfason heitinn, kennari minn úr heimspekinni. Hugtakið menning er líka nátengt orðinu maður – mögulega er menningin það sem gerir okkur mennsk. Hvort sem það er tónlist, myndlist, leiklist, byggingarlist, bókmenntir, nýsköpunar- eða fyrirtækjamenning.

Listin kennir okkur líka að setja veraldlegu hlutina í samhengi, stundum hlutfallslegt. Nú hafa skinnhandritin okkar, þjóðararfurinn ómetanlegi, fengið nýtt húsnæði utan um sig í Eddunni, sem frestað var að byggja í áratug – til að sýna aðhald í ríkisrekstri. Húsið kostaði um 7.500 milljónir, sem er minna en tekjur af tónleikaferð einnar íslenskrar hljómsveitar úti í heimi eða sem kvikmyndaiðnaðurinn hérlendis veltir samkvæmt því sem kemur fram í greinum hér aftar. Eins má segja að annað hvert ár sé alþjóðlegum kvikmyndaiðnaði veittur skattaafsláttur hérlendis sem er ígildi einnar Eddu-byggingar. Starfslaun rithöfunda á því ári sem Eddan var opnuð voru alls 555 mánuðir, eða 46 rithöfundar í fullu starfi án sumarleyfa og þremur mánuðum betur. Teljast þau árslaun þannig vera um 3,75% af kostnaðinum við að byggja húsið, bæði á þávirði ársins 2023. Slíkur samanburður er þó ekki gagnlegur þegar menningarverðmæti eru til umfjöllunar, saga okkar og sjálfsmynd, en nauðsynlegt er að huga að því hvernig þau verðmæti verða til í samtímanum.

Vor í lofti

Vorblað Vísbendingar kemur út á vorjafndægri. Alls eru 22 vandaðar greinar í blaðinu auk tveggja viðtala, úr nýsköpunargeiranum og af listasviðinu. Þetta er stærsta þemablað Vísbendingar hingað til. En þau koma nú út reglulega á hverjum ársfjórðungi.

Þetta blað sýnir bæði mikla grósku í skapandi greinum og öflugan áhuga frá menningargeiranum á efnahag og viðskiptum. Nýsköpun staðnar aldrei, né tengsl eða samspil á milli lista, menningar, skapandi greina, nýsköpunar og hugverka, hvort sem þau flokkast sem umsýsla, hagsmunagæsla, iðnaður, fjármögnun, þróun, stuðningur eða annað. Samtalið heldur stöðugt áfram. Því endanleg niðurstaða fæst aldrei – menning er síkvikt lifandi ferli. En hinn hagræni arður skapandi greina er meira en nægjanlegur, til að menningin standi vel undir sér. Spurningin er bara – lifa listamennirnir af?

Efnisyfirlit vorblaðs Vísbendingar um skapandi greinar:

Sköpunargáfan skapar verðmæti - Logi Einarsson

Ekki bara fiskur, ferðamenn og fallvötn - Ágúst Ólafur Ágústsson

Innviðaskuld við skapandi greinar - Kolbrún Halldórsdóttir

Um virði og virðismat í listgreinum - Jóna Hlíf Halldórsdóttir

Umbreytandi arkitektúr - Anna María Bogadóttir

Uppbygging danslistar á Íslandi - Pétur Ármannsson

Íslenskar bókmenntir taka flugið - Hrefna Haraldsdóttir

Framþróun í myndlistarstefnu stjórnvalda - Auður Jörundsdóttir

Að sá í frjóan jarðveg - María Rut Reynisdóttir

Skinnhandrit samtímans - Magnús Árni Skúlason

List hins opinbera - Þórhallur Guðmundsson

Viðtal: Sigríður Þormóðsdóttir um nýsköpunarumhverfið í Noregi

Mörg kíló af nýsköpun - Þórarinn Stefánsson

Gervigreind og þróun vinnumarkaðarins - Kristján Kristjánsson

Ólga á Kjarvalsstöðum - Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Kjarval: The Immersive Experience - Snærós Sindradóttir

Hver uppsker af fjárfestingu okkar í tónlist? Hrefna Helgadóttir

Rannsóknir og hagtölur í þróun - Erla Rún Guðmundsdóttir

Þríþætt hlutverk skapandi greina - Anna Hildur Hildibrandsdóttir

Nýja Nýja Ísland og innviðir - Marteinn Sindri Jónsson

Jarðvegur skapandi greina - Jón Karl Helgason

Viðtal: Ásta Fanney Sigurðardóttir á Feneyja-tvíæringi árið 2026

Skapandi skáldskapur - Guðrún Eva Mínervudóttir

Skynjun, listir og samfélagið - Anna Rún Tryggvadóttir

Næsta grein